Fréttir

Hafliði Hjartarson með ljósmyndasýningu í tengigangi

Hafliði Hjartarson hefur opnað ljósmyndasýningu í tengigangi Markarinnar en hann er íbúi á Suðurlandsbraut 62 og situr í íbúaráði Grundar - Markarinnar. Ljósmyndasýningin er yfirlitssýning og spannar um 60 ára tímabil. Hafliði byrjaði að taka ljósmyndir þegar hann var tólf ára og á orðið mikið safn ljósmynda. Hann segist einnig hafa fiktað við kvikmyndir og á árunum 1955-1980 tók hann upp töluvert af slíku efni. Hann segist vera mjög ánægður með viðtökurnar, sem hann hefur fengið við sýningunni og finnst gaman hvað margar skoðanir hafa komið í hans eyru, um það hver sé besta myndin að mati sýningargesta. Áhugasömum skal bent á að hægt er að skoða sýninguna alla daga frá klukkan 9 - 18.... lesa meira


Rapp og vöfflur á miðvikudegi

Það er ekki amalegt að búa í Mörkinni og heimsækja Mýrina á miðvikudögum. Nýbakaðar vöfflur með kaffinu og félagsskapurinn frábær. Síðasta miðvikudag komu snillingar frá Nútímanum í heimsókn og könnuðu hug íbúa til rapp tónlistar. Íbúar kunnu vel að meta uppátækið og tónlistina.... lesa meira


Uppskeran úr garðinum dásömuð

Á sumrin er dagskráin í Mýrinni frjálsleg og fólk bara kemur þar við ef það hefur tíma. Oft koma þó margir á miðvikudögum því þá er iðulega eitthvað gott með kaffinu. Það er alltaf eitthvað að spjalla um, sumir sýsla við föndur, prjónaskap, eða púsl og það sem er skemmtilegast við selskapinn í Mýrinni er að aldrei hafa orðið nein leiðindi í hópnum. Ýmsar uppákomur eru líka og síðasta miðvikudag kom Sigurður St. Helgason með afrakstur sumarsins af berjum úr garðinum og hófust miklar tilraunir með drykki úr þeim. Það var alveg greinilegt að smekkur manna er misjafn þegar kemur að drykkjum.... lesa meira


Sumarferðin í Árnessýslu

Sumarferð íbúa að Suðurlandsbraut 58 - 62 var að vanda, farin í byrjun ágúst og ekið um Árnessýsluna. Þetta var mikil kirkjuferð segir Hafliði Hjartarson þegar hann er spurður út í ferðina, enda var aðallega, en þó ekki alltaf, verið á söguslóðum Skálholts, eftir Kamban Það verk var lesið síðasta vetur í bókmenntahópi Markarinnar. Ferðin var hin ánægjulegasta og veðrið gat ekki orðið betra. Var fyrst haldið til Hveragerðis og Gísli Páll Pálsson, framkvæmdastjóri Grundar - Markarinnar, sýndi hópnum háþróað þvottahús, sem Grund á og þvær þar þvott fyrir öll heimilin þrjú og einnig önnur fyrirtæki. Síðan haldið í kirkjuna á Sólheimum í Grímsnesi og svo í Skálholt, þar sem séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, tók á móti okkur og fræddi um staðinn. Eftir þetta var haldið í tómatsúpu að Friðheimum og síðan ekið að Bræðratungukirkju. Eftir stans þar var haldið að Hruna og farið í ný standsetta kirkjuna, en hún varð 150 ára fyrir tveimur árum og þá öll gerð upp. Nú var ekið niður sveitir og áleiðis upp í Þjórsárdal. Þar er kirkja að Stóra Núpi, sem er verið að standsetja og laga, Ekið var þar framhjá og í uppsveitirnar. Kaffi var drukkið að Efsta Dal ll, sem er í Bláskógarbyggð. Að lokum var ekið til Þingvalla og Mosfellsheiðin tekin í bæinn. Allt gekk eins og í sögu, Ólafur Pálmason hélt uppi fræðslu og gamanmáli alla ferðina eins og honum einum er lagið að gera , Atli Björnsson sá um peningamálin og Hafliði Hjartarson hélt utan um ferðina... lesa meira