Frétt

Heilsulind Markar opnuð formlega

Í all nokkur ár hefur verið í byggingu sundlaug og líkamsræktaraðstaða við Suðurlandsbraut 64, rétt austan við íbúðirnar númer 58 – 62.  Tilkoma laugarinnar kemur til af tvennu.  Í fyrsta lagi þurfti að byggja ramp fyrir slökkvibíla til að geta keyrt austan megin við húsin og bjargað fólki úr eldsvoða ef til þess kæmi.  Og þar með varð til heilmikið rými, undir rampinum, sem ekki var vitað til hvers ætti að nota.  Í öðru lagi vann með mér góður maður í þessum íbúðamálum og hann lagði til að byggja þarna sundlaug en ekki einhvern leiðinda veislusal, eins og mig minnir að hann hafi orðað það.  Við veltum vöngum yfir þessu í all nokkurn tíma og á endanum var ákveðið að byggja sundlaug og líkamsræktaraðstöðu í þessu rými, sunnan tengigangsins.  Norðan megin er svo tómstundaaðstaða fyrir íbúana, Mýrin auk skrifstofu og fundarherbergis.

 Byggingarframkvæmdir hafa tekið lengri tíma en áætlað var, og kostað meira.  Við höfum þó ekki þurft að leita eftir utanaðkomandi lánsfjármagni til að ljúka framkvæmdunum.  Allur frágangur er hinn vandaðasti og það er gaman að koma inn í salina og sjá hversu vel hefur tekist til.  Sundlaugin er 12,5 x 5 metrar, heitur pottur, þurrgufa og blautgufa auk líkamsræktarsals.  Hvíldarherbergi og aðstaða til sjúkraþjálfunar auk búningsklefa.

 Rekstur svæðisins hefur verið leigður til nýs einkahlutafélags sem heitir Mörkin heilsulind ehf.  Að því félagi standa Daði Hreinsson og Laila Arnþórsdóttir en þau höfðu samband við mig í byrjun síðasta árs þar sem þau sögðust hafa mikinn áhuga á að leigja þessa aðstöðu.  Eftir all nokkra fundi varð það svo niðurstaðan og taka þau við húsnæðinu í dag.  

 Íbúar íbúðanna við númer 58 – 62 og 68 – 70 greiða mánaðarlegt gjald og verður aðstaðan opin þeim alla virka daga frá 8.00 – 10.00 og frá 15.00 – 17.00 og svo á laugardögum frá 10.00 – 13.00.  Aðstaðan verður einnig opin heimilismönnum í hjúkrunarheimilinu einu sinni í viku og greiða þér sérstaklega fyrir hvert skipti sem þeir koma.  Þá verða Daði og Laila með sérstök námskeið, sundjóga og eitthvað svoleiðis held ég, og munu íbúar íbúðanna fá góðan afslátt af því gjaldi sem rukkað er á hverju námskeiði fyrir sig.

 Á meðfylgjandi mynd eru Laila Arnþórsdóttir og Daði Hreinsson sem leigja heilsulindina og munu reka hana, Jóhann Ólafsson, stjórnarformaður Grundar, Gísli Páll Pálsson forstjóri í Mörk og Júlíus Rafnsson stjórnarformaður GM og ÍEB.

Í dag, föstudaginn 11. janúar verður opið hús í heilsulindinni, frá kl. 16.00 – 18.00.  Allir íbúar hjartanlega velkomnir.

Gísli Páll Pálsson.