Frétt

Kæru vinir

Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins hefur verið sett á samkomubann á landsmenn næstu fjórar vikurnar. Samkomubann þetta miðast við hundrað manns. Það sem mestu máli skiptir er að halda ró sinni, huga vel að hreinlæti s.s. handþvotti með sápu og njóta þess að vera heima. Við tökum á þessu verkefni af æðruleysi og treystum að þið hugið að hagsmunum ykkar og takið skynsamlegar ákvarðanir í umgengni við aðra.

Við biðlum til þeirra íbúa sem eiga maka á hjúkrunarheimilinu að virða heimsóknarbann sem er í gildi á hjúkrunarheimilinu. Þeir íbúar sem heimsækja maka sinn á hjúkrunarheimilið þurfa að halda heimsóknarbanni á sínu heimili. Við þurfum öll að virða takmarkanir í einkalífi til að draga úr útbreiðslu veirufaraldursins sem Covid 19 er. Þeir íbúar sem kjósa að borða í sameiginlegum matsal eru beðnir um að lágmarka samskipti sín við utanaðkomandi aðila til að minnka líkur á smiti á milli manna í matsalnum. Þá biðjum við ykkur um að sitja sem gisnast, sem lengst frá hvort öðru eins og kostur er. Við höfum nú þegar flutt borðin meira í sundur en áður var. Þetta gæti hjálpað til við að hafa matsalinn opinn lengur.

Það sem við getum gert til að draga úr smiti hér innan húss er:
• Handþvottur með sápu númer eitt, tvö og þrjú. Við á Grundarheimilum höfum tekið niður hringa til að tryggja góðan handþvott.
• Takmarka heimsóknir ættingja og vina.
• Heilsa með brosi – engar snertingar.

Við munum við fyrsta smit loka matsal, Kaffi Mörk, Boggubúð, Heilsulind, Mýri og Móa. Íbúar fá eftir sem áður sendan matseðil og geta pantað mat sem þeir fá sendan heim í einnota matarbökkum. Hægt er að panta heimsendan mat alla vikuna eða fyrir staka daga með símtali í síma 560-1702 og/eða með tölvupósti boggubud@morkin.is. Þegar til lokunar kemur munum við senda ykkur tilkynningu.

Eins og fram kemur hér að ofan þá er framhaldið í höndum okkar allra. Við berum sjálf ábyrgð á heilsu okkar. Með því að heyra frekar í ættingjum og vinum í síma og/eða í gegnum tölvu næstu fjórar vikurnar þá minnkum við líkurnar á smiti. Við getum þá frekar notið þess að fara í mat, sund og spilað hér í Mörkinni.

Góða helgi, Alda