Þjónusta
Félagsráðgjöf
Félagsráðgjafi býður upp á stuðningsviðtöl fyrir einstaklinga, hjón/pör og fjölskyldur. Veitir ráðgjöf og stuðning um félagsleg úrræði og ýmiskonar réttindamál. Hjálpar einstaklingum og fjölskyldum að finna nýjar lausnir vegna breytinga á fjárhag og félagslegri stöðu. Þorbjörg Árnadóttir er félagsráðgjafi Grundarheimilanna. Netfangið hennar er thorbjorg.arnadottir@morkin.is.
Gestaíbúð
Fullbúin gestaíbúð er á Suðurlandsbraut 60. Aðstandendur heimilisfólks geta leigt íbúðina búi þeir úti á landi eða erlendis. Íbúðin er fullbúin húsgögnum og uppábúnum rúmum fyrir allt að fjóra einstaklinga. Nánari upplýsingar er hægt að fá í síma 5601901 eða með því að senda tölvupóst á morkin@morkin.is
Guðsþjónustur
Hjúkrunarheimilin eru öll í samstarfi við sínar sóknarkirkjur og einnig starfar sr. Auður Inga Einarsdóttir hjá Grund og í Mörk
Handbók fyrir heimilismenn og aðstandendur
Heimilismannaráð
Á heimilunum eru heimilismannaráð. Þar koma reglulega saman tíu til tólf heimilismenn og ræða ýmsa hluti sem snúa á lífinu á heimilunum. Stundum er það maturinn sem tekinn er fyrir en öðru sinni afþreying eða óskir um varning sem þeir kjósa að hafa til sölu í verslunum. Fundarritari skilar fundargerð og stjórnendur rýna í hana og finna svör sem lesin eru upp á næsta fundi heimilismanna. Þetta hefur reynst frábær vettvangur fyrir heimilismenn til að koma skoðunum sínum á framfæri.
Hjúkrun
Á heimilunum starfa hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, félagsliðar og annað starfsfólk við hjúkrun og umönnun allan sólarhringinn með það að leiðarljósi að heimilismenn geti haldið sjálfræði sínu og lifað lífinu með reisn þrátt fyrir flutning á hjúkrunarheimili. Haldnir eru fjölskyldufundir við komu á heimilið og eftir þörfum. Áhersla er lögð á góð samskipti.
Iðjuþjálfun
Iðjuþjálfar leitast við að virkja einstaklinga þannig að þeir geti öðlast lífsfyllingu þrátt fyrir öldrun eða sjúkdóma. Lögð er áhersla á að aldraðir fái tækifæri til að viðhalda athafnaorku sinni með þeirri tómstundaiðju sem þeir hafa áhuga á. Starfsfólk iðjuþjálfunar leitast við að grípa tækifærin sem gefast til að gera daginn innihaldsríkari og skemmtilegri.
Læknisþjónusta
Alla daga eru læknar á vakt á heimilunum. Skömmu eftir flutning á heimilið er farið yfir heilsufar einstaklings og gerð áætlun um meðferð og eftirlit. Fjölskyldufundir eru haldnir með aðstandendum og hjúkrunarfræðingum til að styrkja tengsl, skiptast á upplýsingum og skilgreina þarfir heimilismanna. Einnig er rætt um gildismat heimilismanna og óskir varðandi meðferð í alvarlegum veikindum. Hægt er að veita fjölbreytta meðferð á heimilunum en ef þörf er á flókinni meðferð og eftirliti, er heimilismaður sendur á Landspítalann. Í allri meðferð er lögð áhersla á lífsgæði og að halda færni einstaklingsins eins og kostur er. Einnig er hugað að forvörnum eins og byltu- og brotavörnum, bólusetningum og eftirliti með sjón og tannheilsu. Heimilismenn þurfa að leita á stofur sjálfstætt starfandi tannlækna.
Matur
Matseðlar heimilanna eru skipulagðir með manneldismarkmið Lýðheilsustöðvar í huga. Reynt er ennfremur að halda í gamlar hefðir og bjóða upp á þjóðlegan mat en líka brydda upp á nýjungum og gefa heimilisfólki færi á að fylgjast með og prófa nýjungar.
Saga heimilismanna
Þegar heimilisfólk flytur á hjúkrunarheimili eru aðstandendur beðnir um að fylla út með heimilismanni upplýsingar sem lúta að lífshlaupi heimilismanns en einnig er varða siði og venjur. Svörin hjálpa starfsfólki að kynnast þeim einstaklingi sem er að flytja á heimilið. Við hvað starfaði hann áður, á hann mörg börn, hvaða áhugamál hefur hann og síðast en ekki síst hvaða siðum og venjum langar hann að halda nú þegar hann flytur á nýjan stað. Starfsfólk getur veitt ráðgjöf eftir þörfum við útfyllingu blaðanna. Það er einnig gaman fyrir heimilisfólk og starfsfólk að hafa albúm til að blaða í, skoða myndir frá liðnum árum í lífi heimilismanns.
Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu
Grundarheimilin eru aðilar að Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Samtökin voru stofnuð í apríl árið 2002 og eru flest aðildarfélög samtakanna fyrirtæki sem eru ekki ríkisfyrirtæki og starfa við velferðarþjónustu samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum frá ríkinu.
Snyrtistofa og hársnyrtistofa
Á heimilunum eru starfræktar snyrtistofur og geta heimilismenn fengið þjónustu þar eins og fótsnyrtingu, handsnyrtingu og plokkun og litun. Þá er á hársnyrtistofu hægt að fá þjónustu eins og klippingu, lagningu, litun, permanent og strípur. Símanúmer á hársnyrtistofu er 5306205 og á fótaaðgerðarstofu 5306219
Sjálfboðaliðar
Heimilin meta mikils það starf sem sjálfboðaliðar inna af hendi á heimilinu. . Ættingjar og velunnarar heimilanna hafa samband og vilja spila við heimilismenn, baka, spjalla og vera með upplestur. Kórar koma reglulega í heimsókn og einnig rithöfundar, leikarar og einsöngvarar. Við bendum öllum þeim sem vilja koma sem sjálfboðaliðar á Grund og í Mörk að hafa samband við skiptiborð heimilanna til að fá frekari upplýsingar.
Sjúkraþjálfun
Heimilisfólki stendur til boða sjúkraþjálfun þegar þess gerist þörf. Markmið sjúkraþjálfunar er að efla færni heimilismanna við hreyfingar daglegs lífs og bæta líðan. Aðferðirnar eru mismunandi og ráðast af greiningu á hreyfigetu hvers og eins, sjúkdómum og orsökum hreyfihindrana. Markviss þjálfun og hreyfing eykur lífsgæði manna. Með aukinni líkamsfærni eykst sjálfstæði og sjáfræði einstaklingsins.. Meðferð í sjúkraþjálfun getur verið þjálfun til að efla hreyfifærni, verkjameðferð, endurhæfing eftir sjúkdóma og brot, útvegun hjálpartækja og fræðsla um skófatnað, húsbúnað og svo framvegis.Boðið er upp á einstaklingsþjálfun en einnig hópþjálfun og hópleikfimi.
Verslun
Á öllum Grundarheimilunum eru verslanir þar sem ríkir sannkölluð kaupfélagsstemning og hægt að kaupa fatnað, snyrtivörur, sætindi og gosdrykki, gjafavörur og hreinlætisvörur.
Þvottahús
Þvottahús heimilanna er í Hveragerði. Jarðgufa er notuð til að þvo, þurrka og strauja og orkukostnaður vegna þessa er einungis brot af því sem það myndi kosta ef nota ætti rafmagn. Í hverja flík heimilisfólks er saumuð lítil örflaga. Flagan inniheldur upplýsingar um viðkomandi heimilismann, á hvaða deild hann er, í hvaða herbergi o.s.frv. Auk þess eru upplýsingar um á hvaða þvottakerfi beri að þvo flíkina. Þessi nýjung eykur afhendingaröryggi, þ.e. mun minni líkur eru á að flíkin týnist eða fari á rangan stað. Allur tækjabúnaður er af nýjustu gerð. Heimilisfólk borgar ekki fyrir þvott á fatnaði sínum. Vert er að geta þess að heimilið ber ekki ábyrgð á fatnaði heimilisfólks og mikilvægt er að megi þvo fatnað á almennu þvottaprógrammi. Sérstakar og viðkvæmar flíkur þurfa aðstandendur að sjá um þvott á og heimilisfólk borgar fyrir hreinsun á fatnaði.