Skeiðarvogshringur

3.1 km, 40 mín. miðað við 4.5 km/klst meðalgönguhraða.

Farið er í austur frá bekknum við nr. 58 í Mörkinni og yfir Suðurlandsbrautina við Langholtsveg.

Yfir suðurendann á Langholtsvegi og áfram austur göngustíginn niður með Suðurlandsbrautinni. Í öðru húsi frá Langholtsveg er hænsnabú og má sjá hænsnin á sumrin í trjárunnunum vinstra megin.

Farið er sem göngustígurinn liggur niður með leikskólanum Steinahlíð og síðan meðfram Sæbrautinni til norðurs. Stundum má sjá börnin í Steinahlíð, sem er á vinstri hönd, að leik í rjóðrum trjánna í garðinum sem er stór og fjölbreyttur.

Eftir smá brekku tengist göngustígurinn gangstétt við Snekkjuvog og við beygjum nú til hægri inn á Barðavog og göngum norður hann. Eftir tæplega 100 m. kemur göngustígurinn aftur í ljós milli grenitrjánna til hægri og beygt er inn í hann og honum núna fylgt að Skeiðarvog.

Beygt er upp Skeiðarvoginn og honum fylgt allar götur yfir Langholtsveg, framhjá Vogaskóla, Menntaskólanum við Sund, fiskbúðinni Hafberg og inn á göngustíginn með Suðurlandsbrautinni að Mörk.

Þar sem fiskbúðin Hafberg er nú var á 5. og 6. áratugnum „íþróttahöllin“ Hálogaland, sem var braggi byggður sem íþróttahús fyrir hermenn sem hér voru á styrjaldarárunum. Var sá braggi aðalíþróttahús Reykjavíkur þar til Laugardalshöllin var byggð snemma á 7. áratugnum.

Búast má við svolitlum umferðargný meðan gengið er næst Sæbrautinni og svifryksmengun í þurri NA átt. En eftir að komið er á Barðavog er gatan nokkuð vel hljóðeinangruð frá Sæbraut.