100 ára afmæli – hvað eigum við að gera?

Á næsta ári verða liðin 100 ár frá því að Grund tók til starfa.  Upphafið má rekja til ársins 1913 þegar þeir Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason, langafi minn, og Páll Jónsson kaupmaður frá Hjarðarholti ræða fátækt og bjargarleysi margra í Reykjavík, sérstaklega þeirra sem eru aldraðir.  Þetta er löngu fyrir tíma opinberra framkvæmda í málum sem þessum.  Slíkt á sér ekki stað fyrr en um það bil hálfri öld síðar.

En þessir tveir menn leggja af stað, fá að sjálfsögðu fleiri með sér í lið á vettvangi Góðtemplarareglunnar og safna peningum til að gefa börnum og eldra fólki í Reykjavík mat.  Í framhaldinu verður til líknarfélagið Samverjinn sem stendur að uppbyggingu Grundar.  Sumarið 1921 voru síðan haldnar „gamalmennaskemmtanir“ til að safna fé til kaupa og/eða byggingar á öldrunarheimili.  Húsið Grund við Kaplaskjólsveg var síðan keypt árið 1922 og var það vígt 29. október sama ár.  Grund við Hringbraut er síðan byggð og tekin í notkun árið 1930.

Í stuttu máli þá var bætt við Grund eftir því sem árin liðu auk nýrra bygginga á því svæði, bæði húsin Minni Grund og Litla Grund til dæmis.  Þá tók Grund að sér rekstur á öldrunarheimili í Ási í Hveragerði sumarið 1952.  Árið 2010 gerði Grund síðan samning við heilbrigðisyfirvöld um rekstur Markar hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbrautina.  Samhliða því keypti Grund 78 íbúðir fyrir 60 ára og eldri vestan megin við hjúkrunarheimilið og byggði svo til viðbótar 74 slíkar austan megin árið 2018.  Þá byggðum við nýtt þvottahús í Hveragerði árið 2006.

Nú stendur til að fagna þessum merkilegu tímamótum á næsta ári.  Stjórn Grundar hefur þegar ákveðið að halda upp á afmælið með ýmiskonar hætti.  En okkur vantar fleiri góðar hugmyndir.  Hvað finnst ykkur við hæfi að gera við svona stór tímamót sem þessi?  Einu slæmu hugmyndirnar eru þær sem aldrei koma fram.  Um að gera að senda mér allt skynsamlegt og skemmtilegt sem ykkur dettur í hug takk.  Í versta falli þá mun ég brosa, jafnvel hlægja, og það getur nú ekki skaðað neinn.   En eflaust fæ á mýgrút af góðum hugmyndum sem við í stjórn Grundar munum moða úr við skipulagningu afmælisins.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna