Fréttir

Kaffihús í suðurgarði Grundar

Stefnt er að því að hefja í vor framkvæmdir við laufskála/kaffihús við Grund á Hringbraut. „Vonandi tekst okkur að opna kaffihúsið öðrum hvorum megin við áramótin næstu,“ segir Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna í samtali við Morgunblaðið í gær, mánudag. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk Grundar að fá að reisa laufskála sunnan aðalbyggingar heimilisins við Hringbraut. Um er að ræða 112 fermetra hús og 520 fermetra lóðarfrágang. Kostnaðaráætlun er rúmlega 150 milljónir króna. Laufskálinn verður sjálfstæð bygging sem tengist aðalbyggingunni með yfirbyggðum gangi. Þarna verður kaffihús fyrir heimilisfólk og aðstandendur, leiksvæði fyrir börnin og hægt að opna út á verönd og sitja þar í sólinni. Í umsókn ASK-arkitekta til borgarinnar kemur fram að laufskálinn/ garðskálinn og útivistarsvæði séu hugsuð sem dvalarsvæði fyrir íbúa Grundar, þar sem þeir geti tekið á móti gestum í skjólsælu og sólríku umhverfi. Leiksvæði, gönguleiðir og dvalarsvæði uppfylli skilyrði um aðgengi fyrir alla. Þá geti viðburðir farið þarna fram, eins og tónleikar. Hönnun lóðarinnar er unnin af Landslagi ehf.

Til eftirbreytni

Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir auglýstu nýlega fyrir hönd ríkissjóðs eftir 4 til 8 þúsund fermetra húsnæði. Sem ráðgert er að nota fyrir 60 – 120 hjúkrunarsjúklinga á höfuðborgarsvæðinu í sólarhringsþjónustu. Sem sagt dæmigert hjúkrunarheimili. Og augljóst er að nú skal greiða leigu fyrir húsnæðið þar sem talað er um undirritun leigusamnings. Samnings sem verður til allt að 20 ára með möguleika á 10 ára framlengingu. Athygli mína vakti afar stuttur frestur til að skila inn tilboði, oft á hinn veginn hjá hinu opinbera, en þörfin er brýn og því nauðsynlegt að bregðast skjótt við. Með þessari auglýsingu hefur orðið feikn mikil og jákvæð breyting á afstöðu ríkissjóðs/ríkisvaldsins til þess að greiða leigu fyrir það húsnæði sem nýtt er undir hjúkrunarþjónustu og umönnun þeirra sem eldri eru og þurfa á slíku skjóli að halda. Fyrir rétt rúmlega tveimur árum töpuðu Grundar- og Hrafnistuheimilin í Hæstarétti máli sínu á hendur sama framangreinda ríkisvaldi, þess efnis að fá greidda sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem félögin útvega til reksturs hjúkrunarrýma. Þessi auglýsing er því algjör himnasending og staðfestir hér með ríkan vilja ríkisvaldsins til að greiða, og þá væntanlega öllum, ekki bara sumum, sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem nýtt er undir öldrunarþjónustu hér á landi. Það eru greinilega bjartari tímar framundan enda batnandi mönnum best að lifa. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Gleðistund þegar Kristján kemur í heimsókn

Kristján Sigurðsson kom reglulega á aðra hæð í Mörk þegar tengdamóðir hans Lára Þorstensdóttir var þar heimiliskona. Eftir að hún lést hefur hann haldið tryggð við hæðina og mætir oft til okkar með gítarinn og tekur lagið. Það eru sannkallaðar gleðistundir þegar Kristján kemur í heimsókn.

Notaleg samverustund

Það er gefandi að sjá hversu notalegt fólkið okkar hefur það sem mætir á samverustund á þriðju hæð Grundar. Sem fyrr engin dagskrá en fólk kemur bara og dundar sér við það sem hugur stendur til. Spjall, prjónaskapur og hvers kyns listsköpun. Sumir koma svo bara við til að hitta fólk, spjalla og eiga góða stund.

Bóndadagur íbúa 60+

Bóndadeginum var fagnað hér í Mörkinni síðasta föstudag en hann markar upphaf Þorra. Það var boðið í Þorraveislu að hætti hússins með tilheyrandi súrmeti í matsalnum og Kaffi Mörk. Margir mættu í lopapeysum og þjóðlegum flíkum í tilefni dagsins.

Minni karla og þorramatur

Á bóndadaginn var efnt til söngstundar í setustofu á þriðju hæð Grundar þar sem heimilisfólk söng minni karla og ýmis lög sem tengjast þorranum. Að sjálfsögðu var svo boðið upp á þorramat á Grund.

Bóndadagurinn í Mörk

Það var aldeilis huggulegt á 2. hæðinni í Mörk á bóndadaginn. Þorramaturinn rann ljúflega niður og andrúmsloftið að venju létt og notalegt.

Spjallað og bjástrað

Það þarf ekkert endilega skipulagða skemmtidagskrá til að brjóta upp daginn. Stundum nægir bara samvera og sumir kjósa að dunda sér á meðan við prjónaskap, mála kannski, teikna eða lesa. Svo gerir náttúrulega útslagið að fá heitan bakstur á axlirnar.

Þegar úti er hráslagalegt

Þegar veðrið er ekkert ýkja gott er yndislegt að hlusta á góða sögu og kannski kúra undir teppi líka. Svoleiðis stund á annarri hæðinni í Mörk.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Flestum okkar finnst sjálfsagt að búa við góða heilsu. Ég hef í það minnsta verið heppinn hingað til og verið heilsuhraustur það sem af er ævi. Minnist þess ekki að hafa legið á sjúkrahúsi eða veikst alvarlega. En það er síður en svo sjálfgefið hjá síðmiðaldra manni eins og mér. Engu að síður getur maður gleymt sér og fundist lífið eitthvað ómögulegt þegar það í raun blasir við manni, fullt af tækifærum og skemmtilegheitum. Sleit sin í löngutöng um daginn, líklega í flugeldasölunni. Fremsta kjúkan lafði aðeins niður og ég fór ekki strax til læknis. Kíkti á HSU í síðustu viku og fékk þá þessa niðurstöðu með slitnu sinina. Og þar sem ég hafði trassað að láta kíkja á þetta þarf ég að vera með spelku á fingrinum næstu sjö vikurnar. Hefur aðeins takmarkandi áhrif á mig, get til dæmis ekki tekið þátt í björgunarsveitarstörfum af neinu viti fyrr en í mars. Var smá svekktur til að byrja með en var kippt gersamlega niður á jörðina í síðustu viku. Þurfti að fara í verslunina Stoð í Hafnarfirði að kaupa mér aðeins stærri spelku á puttann. Á undan mér í búðinni var ung kona, rúmlega tvítug, mjög líklega með einhvern ólæknandi vöðvarýrnunarsjúkdóm, var frekar veikburða að sjá. Hún var að fá nýjar hækjur og á hækjurnar var verið að setja færanlegan brodd til að setja niður til notkunar í hálkunni. Síðan var hægt með einu handtaki að setja broddinn til hliðar. Andlit hennar ljómaði yfir því sem hún var að fá og ég heyrði á henni hvað hún var glöð með þetta allt saman, hækjurnar og fiffið sem fólst í því að setja broddinn niður með einu handtaki. Ég dauðskammaðist mín yfir því að hafa dottið í hug að kvarta, reyndar bara innra með mér og við Öldu, vegna þessarar litlu fingurspelku. Ég get verið alveg klikk. Þarna sá ég hversu lánsamur ég hef verið í gegnum tíðina og hef í raun yfir engu að kvarta. Munum þetta dæmi mitt næst þegar við dettum í einhvern dökkálfagír út af einhverjum smámunum, vondu veðri, óþekkum börnum eða slitnum sinum. Hlutskipti okkar gæti orðið að fagna með bros á vör og þakklæti brodd á hækjum, sem við þyrftum að nota fyrir lífstíð. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna