Fréttir

Sumarblómin komin

Sumarblómin komu til okkar í Mörkina í dag beint frá gróðurhúsunum okkar í Ási. Stúlkurnar úr ræstingunni tóku það að sér að planta þeim í beðin okkar. Alltaf jafn gaman að sjá beðin svona blómleg. Nú má sumarið koma.

Sumarbyrjun ??

Nú styttist í sumarið, þó að veðurfarslega sé ekki að sjá það. Við vonum það besta og reiknum með að við fáum betra sumar eftir rysjótt vorið. Veðrið hefur sett strik í reikninginn hjá okkur á Grundarheimilunum t.d. hefur púttvöllurinn sem að við erum með í Mörkinni látið verulega á sjá. Við eigum von á því að geta opnað hann fljótlega, þó að hann verði ekki orðinn iðagrænn. Við leitum ráðlegginga til færustu golfvallarsérfræðinga í þeim efnum og fylgjum þeirra ráðum. Víða hafa nýþvegnir gluggar i Mörk og Ási líka fengið að kenna á rokinu og erfitt að sjá út. Það sem að fylgir vorinu og upphafi sumars hjá okkur er svo fjöldinn allur af sumarstarfsfólki sem að kemur til starfa til að hleypa okkur sem að venjulega stöndum vaktina í kærkomið frí. Hópurinn er að venju stór og fjölbreyttur og hef ég notað tækifærið til þess að hitta nýliðana okkar sem að þegar eru komnir til starfa í nýliðafræðslu sem að er byrjuð hjá okkur á öllum heimilum. Næsti hópur byrjar svo í byrjun júní í fræðslunni, en fræðslan er keyrð í tveimur hópum þar sem að starfsmenn byrja á misjöfnum tímum. Við þetta tilefni hef ég notað tækifærið og kynnt þeim eitt það allra mikilvægasta sem að við verðum að hafa í huga við þjónustu þeirra sem að þurfa á okkar þjónustu að halda. Að mínu mati er það eitt af gildum Grundarheimilanna, virðing. Öll viljum við njóta virðingar og mikilvægt að við gætum þess í störfum okkur að gleyma því ekki í samskiptum við aðra. Við berum virðingu fyrir samstarfsfólki, heimilisfólki, aðstandendum o.fl. og ætlumst til að fá virðingu til baka. Við þurfum ekki að vera sammála til að sýna skoðunum og lífsýn annarra virðingu. Alltaf er gott að hafa hugfast hvað maður sjálfur myndi vilja þegar að einhver gengur mjög nálægt manni í að sinna persónulegum þörfum. Við þurfum líka að muna það að spyrja heimilisfólk hvað það vill og sýna skoðunum þeirra og vali viðringu með því að nálgast þau eins og við sjálf myndum vilja. Viljum við ekki vera spurð um hvað við viljum borða í morgunmat? Viljum við láta tala um okkur eða við okkur? Margt smátt sem að við getum gert sem að skiptir gríðarlegu máli. Ég býð alla okkar frábæru nýliða velkomna til starfa og hvet þá sem að fyrir eru til að taka vel á móti þeim og aðstoða við fyrstu skrefin í nýju starfi. Það ferli er lærdóms ríkt fyrir okkur öll. Þessi vikupóstur er minn fyrsti sem nýr forstjóri Grundarheimilanna. Ég nota tækifærið til að þakka stjórn Grundarheimilanna traustið sem að mér er sýnt með því að fela mér þetta starf. Ég hef notið fyrstu dagana í starfinu og hlakka til áframhaldandi samstarfs hér eftr eins og síðustu 12 ár þar á undan í öðru hlutverki. Ég auglýsi sömuleiðis eftir góðum hugmyndum að umfjöllunar efni, af nógu er að taka og flott að fá fleiri hugmyndir frá ykkur. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna

Velkomin á markað í dag

Við minnum á vormarkaðinn okkar sem verður opinn í dag, mánudaginn 22. maí. frá klukkan 11:00 til 15:00. Markaðurinn var opnaður fyrir helgi, síðasta föstudag og meðfylgjandi myndir voru teknar þá. Allur varningur er ókeypis en gott er að hafa með sér poka. Verið hjartanlega velkomin.

Óskilamunir á Grund

Vormarkaður á Grund

Eurovision stemning

Það var Eurovision stemning í Ási fyrir helgina og vakti kátínu þegar boðið var upp á tónlistar bingó með Eurovison lögum. Heimilisfólk söng og dansaði með. Bingóvinningarnir voru í anda dagsins, sætindi og gos.

Leikskólabörn á Grund

Um tólf leikskólabörn af elstu deild á Sælukoti ætla að kíkja reglulega í heimsókn á Grund, spila, föndra, syngja og spjalla við heimilisfólkið. Þau komu í fyrsta sinn í síðustu viku og það er óhætt að segja að það hafi tekist með eindæmum vel. Það var ýmislegt brallað í hátíðasalnum þennan morgun, farið í boccia, vatnslitað, spjallað og svo var boðið upp á hressingu.

Fyrsta skóflustungan tekin að nýju kaffihúsi

Í dag, þriðjudaginn 2. maí, var fyrsta skóflustungan tekin að nýjum laufskála sem rísa á í suðurgarði Grundar við Hringbraut. Um er að ræða 100 fermetra kaffihús þar sem heimilismenn og aðrir gestir geta komið og keypt sér veitingar í notalegu umhverfi. Hægt verður að opna kaffihúsið út á sólríkum dögum og njóta veðurblíðu á útikaffihúsi. Þá verður einnig útbúin leikaðstaða fyrir börn. Laufskálinn mun létta yfirbragð þessa fallega og reisulega húss sem Grund er og veita Vesturbæingum gleði en meiningin er að íbúar í hverfinu geti einnig nýtt sér þjónustu kaffihússins. Áformað er að taka kaffihúsið í notkun í kringum næstu áramót. Skóflustunguna tóku frá vinstri Guðrún B. Gísladóttir fyrrverandi forstjóri Grundar til 25 ára, Sigmundur I. Júlíusson heimilismaður og Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundar.

Stjórnarformanni þakkað

Á stjórnarfundi Grundarheimilanna fyrir viku lét Jóhann J. Ólafsson stjórnarformaður af embætti sínu. Jóhann hefur gegnt embætti stjórnarformanns í tæp tuttugu ár og staðið sig mjög vel. Jóhann hefur alla tíð lagt mikla áherslu á stefnumótun og mikilvægi þess að horfa fram í tímann, bæði langt og stutt. Hann stóð fyrir og mótaði okkar árlegu, og stundum tvisvar á ári, stefnumótunarfundi þar sem litið er til framtíðar, spáð og spekúlerað, ásamt því að líta í baksýnisspegilinn til að læra af því sem áður var gert. Nýjar hugmyndir, hugsa út fyrir boxið og horfa á hlutina út frá viðskiptahagsmunum hafa einnig verið góðu kostir Jóhanns í stjórn Grundar sem hafa oft á tíðum komið heimilunum mjög vel. Við Jóhann höfum ekki alltaf verið sammála, sem betur fer. Mismunandi skoðanir gefa kost á rökræðum, velta fyrir sér kostum og göllum hvers máls fyrir sig og við höfum ávallt komist að sameiginlegri niðurstöðu, jafnvel niðurstöðu sem hvorugur okkar sá við upphaf rökræðna. Með þannig mönnum finnst mér gott að vinna. Fyrir hönd Grundarheimilanna þakka ég Jóhanni kærlega fyrir afar gott og farsælt samstarf og óska honum velfarnaðar. Allt hefur sinn tíma. Þessi pistill er sá síðasti sem ég sendi ykkur sem forstjóri Grundarheimilanna og þakka ég ykkur kærlega fyrir samfylgdina, lesturinn og mörg áhugaverð svör í gegnum árin. Ég hef lært af ykkur og fengið góðar og uppbyggilegar athugasemdir í gegnum tíðina. Kveðja og góða framtíð, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna